Látrabjarg

Uncategorized @is

Látrabjarg, 14 km langt bjarg með mestu fuglabjörgum jarðar. Enn er sigið þar eftir eggjum en fuglatekja lagðist af árið 1926. Við bjargið hafa orðið nokkur sjóslys. Hæst er bjargið 441 m á Heiðnukinn austan við Saxagjá. Austan við Heiðnukinn er Djúpidalur, Kyngjulönd og Geldingsskorardalur, en neðan hans er Flaugarnef. Af Flaugarnefi sigu björgunarmenn þegar breski togarinn Dhoon strandaði þar í desember 1947. Aðrir björgunarmenn biðu á Flaugarnefi og tóku á móti nokkrum skipbrotsmannanna og gættu þeirra þar um nóttina, en hinir urðu að hírast í urð undir bjarginu ásamt björgunarmönnum. Í desember 1997 reisti SVFÍ minnismerki við Látraheiðarveg í mynni Geldingsskorardalsskarðs um þennan atburð, sem talinn er eitt fræknasta björgunarafrek við Ísland. Frá minnismerkinu er aðeins um 10 mínútna gangur á bjargbrún þar sem horfa má yfir sögusviðið.