Möðrudalur

Uncategorized @is

Möðrudalur, á Efra-Fjalli, liggur hæst bæja á Íslandi, 469 m, og lengst inni í óbyggðum. Landrými geysimikið. Sauðlönd mikil og góð enda hefur verið þar stórbú um aldir.
Prestssetur var þar fyrrum og kirkju staður. Núverandi kirkju reisti Jón A. Stefánsson (1880 -1971) bóndi þar og gerði sjálfur altaristöflu. Hann var tónelskur. Sonur hans var Stefán listmálari Jónsson, Stórval (1908 – 94), sérstæður lífslistamaður.
Víðsýni í Mörðudal er stórmikið og fjallasýn. Mest ber á „fjalldrottningunni“ Herðubreið, 1682m, sem er fjalla fegurst en einnig sér til Dyngjufjalla, inn til Vatnajökuls og Kverkfjalla í norðurrönd hans.
Í Möðrudal hefur sauðfé jafnan gengið sjálfala að mestu nema í hörðustu vetrum. Til dæmis um það hve Möðrudalur er afskekktur má geta þess að árið 1814 skýrir ferðamaður sem gisti þar frá því að bóndinn hafi átt sex uppkomin börn sem aldrei höfðu komið á annan bæ. Var hið elsta þeirra þó gift og átti þrjú börn. Nú er rekin ferðaþjónusta í Möðrudal og einnig kjötvinnsla þar sem unnið er úr heimaafurðum og selt beint til neytenda.