Snæfellsjökull

Uncategorized @is

Snæfellsjökull, megineldstöð (eldkeila) og eitthvert frægasta fjall á Íslandi, 1446 m hátt. Ekkert fjall rís þó hærra frá sjó, auk þess sem hann stendur stakur.
Eggert Ólafsson og Bjarni Pálsson gengu fyrstir nafnkenndra manna á jökulinn, 1. júlí 1753. Þótti það þá hin mesta háskaför en nú er mjög fjölfarið á jökulinn. Gosið hefur oft í jöklinum og við hann, þó ekki á sögulegum tíma svo vitað sé. Jökullinn var um tvöfalt stærri upp úr aldamótum 1900 en hann er nú.
Snæfellsjökull er nú frægur vegna alþjóðlegrar dulmagnatrúar á honum, en heimsfrægð hans er þó eldri, frá því að skáldsaga Jules Verne, Leyndardómar Snæfellsjökuls (Ferðin að miðju jarðar), kom út 1864. Jökullinn og umhverfi hans varð þjóðgarður árið 2001. Mörk þjóðgarðsins eru í suðri við Háahraun í landi Dagverðarár og í norðri við Gufuskála.