Siglufjörður

Uncategorized @is

Siglufjörður, er annar tveggja byggðakjarna Fjallabyggðar. Siglufjörður er nyrsti kaupstaðurinn á Íslandi.
Fáir bæir á Íslandi eiga sér jafn viðburðarríka sögu og Siglufjörður. Gengi fiskveiða og sjávarútvegsfyrirtækja hefur risið og hnigið á víxl og staðurinn ýmist gleymdur eða víðfrægur.
Þjónusta við ferðamenn hefur aukist á undanförnum árum og er kappkostað að taka vel á móti gestum bæjarins. Með tilkomu Héðinsfjarðarganga hefur orðið mikil fjölgun ferðamanna enda hefur Siglufjörður upp á margt að bjóða sem vert er að skoða og njóta. Þar er Síldarminjasafnið, sem hlaut Íslensku safnaverðlaunin fyrst safna, árið 2000. Þar er einnig Ljóðasetur.
Á Siglufirði er ár hvert haldin Þjóðlagahátíð í júlíbyrjun. Fjölskylduhátíðin Síldarævintýri er haldin um verslunarmannahelgi ár hvert.
Sjö snjóflóðavarnargarðar eru fyrir ofan bæjarinn. Stærstir þeirra eru Stóri boli, 18 m hár, og Litli boli, 14 m hár, samtals tæpur kílómetri að lengd. Hægt er að ganga ofan á görðunum og er það vinsæl gönguleið enda útsýnið glæsilegt. Í Skarðsdal sem liggur upp úr Siglufirði er glæsilegt skíðasvæði sem er eitt snjósælasta skíðasvæði landsins.