Ísafjörður

Uncategorized @is

Ísafjörður, höfuðstaður Vestfjarða stendur við Skutulsfjörð. Áður hét bærinn Eyri og allt fram á seinni hluta 19. aldar stóð þar samnefnt prestsetur.
Samkvæmt Landnámu, reisti Helgi Hrólfsson bæ sinn á eyrinni og gaf firðinum nafnið eftir að hafa fundið skutul rekinn í flæðarmálinu. Bær hans er talinn hafa staðið á bæjarhólnum þar sem prestsetrið reis síðar.
Fjörðurinn er umkringdur háum og bröttum fjöllum og fjórir dalir, Engidalur, Dagverðardalur, Tungudalur og Seljalandsdalur ganga inn úr firðinum. Þar er útivistarsvæði Ísfirðinga. Í Tungudal er 9 holu golfvöllur, skíðasvæði, tjaldsvæði og gönguleiðir um skógræktarlandið. Í Engidal er fyrirhuguð hesthúsabyggð og reiðvellir. Á Seljalandsdal er skíðagöngusvæði með upplýstum brautum og skíðaskála.
Innan við eyrina er Pollurinn, ein besta höfn landsins frá náttúrunnar hendi. Bærinn á sér langa sögu og settust kaupmenn að á eyrinni um miðja 16. öld. Í Neðstakaupstað eru fjögur friðlýst hús frá tímum danskra verslunarfélaga, það elsta frá 1757. Hvergi á Íslandi eru eins heillegar og vel varðveittar minjar um verslunarstað frá fyrri öldum.
Byggðin á eyrinni tók ekki að vaxa fyrr en með afnámi einokunar og stofnun kaupstaðar árið 1787. Ísafjörður hefur lengi verið með mestu útgerðarstöðum á landinu. Þar urðu menn fyrstir til að vélvæða báta og veiða rækju. Eins og aðrir staðir sem byggja afkomu sína á vinnslu sjávarfangs, hefur Ísafjörður ekki farið varhluta af breytingum síðustu ára. Sú breyting hefur getið af sér aðrar áherslur og eru nú sterk hátæknifyrirtæki á Ísafirði sem byggja þekkingu sína á áralangri reynslu í sjávarútvegi.