Hólar

Uncategorized @is

Hólar, mesti sögustaður Norðurlands og segja Skagfirðingar enn „heim að Hólum“. Biskupssetur 1106-1798, latínuskóli frá siðaskiptum til 1802, prentsmiðja um sama tíma. Hólar var þá höfuðstaður Norðurlands.
Margir merkismenn hafa setið þar á biskupsstóli, svo sem Jón Ögmundsson (1052?-1121) 1106-21, Jón Arason (1484-1550) 1524-50 og Guðbrandur Þorláksson (1541-1627) 1571-1627. Guðbrandur var listfengur, skar út og smíðaði, en mestur var orðstír hans fyrir bókagerð og þýðingar. Mesta stórvirki hans er biblía sú sem við hann er kennd, Guðbrandsbiblía, sem talin er hafa haft afgerandi áhrif á varðveislu íslenskrar tungu.
Dómkirkjan er byggð úr sandsteini úr Hólabyrðu og er elsta steinkirkja landsins. Hún var vígð 1763 og endurvígð 1988 eftir gagngera viðgerð.
Séra Benedikt Vigfússon reisti árið 1860 torfbæ, Nýjabæ, ofarlega í túninu. Nýibær er friðlýstur og hluti af húsasafni Þjóðminjasafns Íslands síðan 1956 er hann var tekinn á fornleifaskrá. Auðunarstofa, sem stóð á Hólum á 14. -18. öld, hefur verið endurreist í trjálundi, stokka- og stafahús með torfþaki.
Fornleifarannsóknir hafa farið fram á biskupsstólnum Hólum en einnig við Kolkuós, fyrrum höfn Hólabiskupa og landnámshöfn. Talið er að Elínarhólmi, sem er úti fyrir landi, hafi jafnvel verið landfastur og þannig myndað góða hafnaraðstöðu. Meðal þess sem hefur fundist þarna er talið hafa verið smiðja þar sem járnframleiðsla fór fram.
Á Hólum er háskóli þar sem lögð er áhersla á ferðamálafræði, hestafræði og fiskeldis- og fiskalíffræði. Á sumrin er boðið uppá margháttað menningardagskrá að Hólum.