Eiríksstaðir

Uncategorized @is

Eiríkur rauði og konan hans Þjóðhildur reistu sér bú að Eiríksstöðum í Haukadal eftir því sem segir í Eiríks sögu rauða. Þar er talið að Leifur heppni og bræður hans séu fæddir. Rústir Eiríksstaða voru kannaðar fyrir miðja síðustu öld og aftur 1997-1999. Kom þá í ljós skáli frá 10. öld og eru rústir hans sýnilegar. Skammt frá rústunum var reist tilgátuhús sem var vígt árið 2000, á 1000 ára afmæli landafunda Leifs í Ameríku.
Í tilgátuhúsinu er reynt að sýna hvernig Eiríksstaðabærinn var þegar hann var í fullri notkun, m.a. er þar líkan af rúmstæði því sem Leifur fæddist í. Fyrir innan bæ Eiríks rauða er Seftjörn, þar sem knattleikur var iðkaður er Eiríkur bjó í Dalnum.
Leifur kannaði Vínland árið 1000, fyrstur Evrópubúa, nær 500 árum á undan Kólumbusi. Leifur heppni er því meðal merkustu landkönnuða sögunnar. Á Eiríksstöðum er stytta af Leifi eftir Nínu Sæmundsson.